144. löggjafarþing — 109. fundur,  20. maí 2015.

dagskrá næsta fundar.

[10:30]
Horfa

Lilja Rafney Magnúsdóttir (Vg) (um atkvæðagreiðslu):

Herra forseti. Þessi dagskrártillaga er í raun og veru björgunarhringur til stjórnarliða. Ekki hafði hæstv. fjármálaráðherra burði til þess að grípa í þann björgunarhring, frekar fór hann í þær skotgrafir að tína til að síðasta ríkisstjórn hefði nú gert þetta og hitt varðandi rammaáætlun og að hún hefði tekið þar nokkra kosti eftir lögformlegt umsagnarferli og sett í bið, þess vegna ætluðu nú menn aldeilis að sýna hver hefði valdið í dag. Þetta var nú ansi barnalegt, fannst mér, af hæstv. fjármálaráðherra, (Fjmrh.: Ekki tala svona um hann Össur.) að hann sýndi ekki meiri þroska en það og ekki eykst þroskinn þegar aðalhaldið í þessu máli er rit Össurar Skarphéðinssonar (Fjmrh.: Frábær bók. Frábær bók.) sem hefur verið auglýst hér mjög stíft í ræðustól Alþingis (VigH: Frábær bók.) og umboðsmaðurinn, hv. þm. Vigdís Hauksdóttir, lagði alla sína ræðu undir slíkan málflutning í gær. Ég held að hæstv. (Forseti hringir.) fjármálaráðherra ætti að reyna að leiða þessa ríkisstjórn en ekki vera í svona barnaskap.