144. löggjafarþing — 109. fundur,  20. maí 2015.

dagskrá næsta fundar.

[10:38]
Horfa

Svandís Svavarsdóttir (Vg) (um atkvæðagreiðslu):

Virðulegi forseti. Staðan er sú einmitt núna að við höfum hér, stjórnarandstöðuþingmenn, ákallað forseta í allnokkra daga og reynt að leiða honum það fyrir sjónir í ljósi umræðunnar og stöðu þessa máls að það sé óráð að hafa málið á dagskrá. Við höfum gert það ítrekað og við höfum rökstutt það og umræðan hefur í raun varpað enn frekar ljósi á mikilvægi þess að málið verði tekið á dagskrá og þess freistað að ná einhverri vitrænni lendingu í því. (Gripið fram í.)

Hér í umræðunni undanfarna daga hefur tvennt gerst, annars vegar hefur hv. þm. Ásmundur Friðriksson lýst því að hann vilji gjarnan leita leiða til að finna sátt. Það hefur líka komið fram í máli hans að hann hafi ekki kynnt sér lögfræðiálit umhverfisráðuneytisins þó að hann skrifi undir breytingartillögu meiri hluta atvinnuveganefndar. Það er alvarlegt. Hv. þm. Guðlaugur Þór Þórðarson lýsir því hér að hann átti sig ekki á þinglegri stöðu málsins. Hann telur að málið sé á leiðinni til nefndar — milli hvaða umræðna? Eða er hann að leggja það til að málið fari til nefndar núna (Forseti hringir.) undir 2. umr.? Ef svo er þá fagna ég því. En ég bið þingheim (Forseti hringir.) og hvern og einn þingmann að líta nú aðeins í eigin barm og taka sjálfstæða (Forseti hringir.) afstöðu til þess hvort ekki sé rétt að taka málið út af dagskrá og reyna að koma því í uppbyggilegri farveg.