144. löggjafarþing — 109. fundur,  20. maí 2015.

dagskrá næsta fundar.

[10:52]
Horfa

Katrín Júlíusdóttir (Sf):

Virðulegi forseti. Þessi tillaga snýst um það að við í stjórnarandstöðunni erum að bjóða fram stuðning okkar við að hér verði uppbyggilegt samtal um hvernig taka megi á þeirri alvarlegu stöðu sem uppi er á vinnumarkaði. Verið er að slá á þá útréttu hönd í þessari atkvæðagreiðslu. Hér sýnir meiri hluti þingsins þann vilja sinn í verki að ætla ekki að skipta sér af því sem er að gerast á vinnumarkaði.

Það er svona sem þessir hv. þingmenn líta á hlutverk sitt á hinu háa Alþingi, (Gripið fram í.) þ.e. að halda okkur í umræðu um afar umdeilt mál sem menn hafa ekki einu sinni komið sér saman um innan stjórnarmeirihlutans hvernig eigi að ljúka. Á sama tíma logar allt í illdeilum á vinnumarkaði og menn hafa engan áhuga á að ræða það. (RR: Kjaftæði.) Og menn hafa engan áhuga á því að taka höndum saman við okkur í stjórnarandstöðunni um að leita lausna, uppbyggilegri lausna. (Forseti hringir.) Það er það sem þessi tillaga hér snýst um og það er ekki að furða þótt menn séu viðkvæmir fyrir því að heyra sannleikann. [Háreysti í þingsal.]