144. löggjafarþing — 109. fundur,  20. maí 2015.

breytingartillögur við rammaáætlun.

[11:05]
Horfa

Svandís Svavarsdóttir (Vg):

Virðulegur forseti. Mig langar til að fara þess á leit við forseta að það verði boðaður fundur með þingflokksformönnum og að við förum yfir þá stöðu sem komin er hér upp. Ég óska eftir því að hæstv. forseti taki sérstaklega fyrir á þeim fundi stöðu þingflokka stjórnarmeirihlutans. Ég held að það sé full ástæða til að róa þingflokkana vegna þess að það er gríðarlega mikil spenna meðal þingmanna stjórnarmeirihlutans sem geta ekki á sér setið með gaspur hér og frammíköll nánast án samhengis við það sem sagt er í ræðustól þannig að það þarf að fara sérstaklega yfir það.

Það kom fram í Fréttablaðinu í morgun að hæstv. ráðherra málaflokksins, Sigrún Magnúsdóttir, telur ekki að hún þurfi að gera frekari grein fyrir afstöðu sinni í málinu heldur muni afstaða hennar koma í ljós við atkvæðagreiðsluna. Þetta gengur ekki, virðulegur forseti. Sú staða eins málaflokks á Alþingi gengur ekki upp að ráðherra málaflokksins ætli að láta koma í ljós afstöðu sína til mjög (Forseti hringir.) afgerandi breytingartillögu í stóru máli, stærsta ágreiningsmálinu í þinginu, við atkvæðagreiðsluna í tveggja mínútna atkvæðaskýringu. Hér þarf að stilla fólk aðeins af og gera fólki grein fyrir því hvernig málin eru að þróast.