144. löggjafarþing — 109. fundur,  20. maí 2015.

breytingartillögur við rammaáætlun.

[11:14]
Horfa

Oddný G. Harðardóttir (Sf):

Herra forseta. Ég bið forseta um að ræða það á fundi sínum með þingflokksformönnum hvort ekki sé möguleiki að gefa hæstv. forsætisráðherra rými á dagskrá þessa fundar til að fara yfir það með hvaða hætti breytingartillaga meiri hluta atvinnuveganefndar leysir kjaradeilur. Það er mjög mikilvægt að það komi inn í umræðuna áður en lengra er haldið.

Einnig vil ég lýsa áhyggjum mínum af viðhorfi því sem kom fram í máli formanns Sjálfstæðisflokksins áðan í umræðum um dagskrártillöguna þar sem formaður Sjálfstæðisflokksins virðist vísa ábyrgð á ákvörðun meiri hluta atvinnuveganefndar til ákvörðunar á síðasta kjörtímabili, að flokka ekki í nýtingarflokk virkjunarkosti á tveimur svæðum sem þyrftu nánari skoðunar við og að ábyrgðin hvíli á þeirri afdrifaríku (Forseti hringir.) tillögu og umdeildu að fara fram hjá verkefnisstjórn og lögbundnu ferli. Ég frábið mér slíka ábyrgð og bið forseta að kalla til fundar með formanni Sjálfstæðisflokksins og fyrrverandi ráðherrum sem sáu um þetta mál til að fara yfir þá sögu alla.