144. löggjafarþing — 109. fundur,  20. maí 2015.

breytingartillögur við rammaáætlun.

[11:17]
Horfa

Helgi Hjörvar (Sf):

Virðulegur forseti. Það er auðvitað býsna merkilegt að ráðherra í ríkisstjórn Íslands skuli líta svo á að afstaða hans í eigin málaflokki sé leyndó og að nokkrir stjórnarþingmenn líti svo á að afstaða þeirra í opinberri umræðu í opinberum málefnum sé leyndó sem eigi að koma fram á einhverjum óvæntum tímapunkti. Það er að vísu hægt að sýna því skilning að stefna eða stefnuleysi ríkisstjórnarinnar sé eitthvað sem menn vilji laumast með og helst ekki gera opinbert fyrr en á allra síðustu stundu og að sem fæstir taki eftir því. Ég held að það sé algerlega óhjákvæmilegt, eftir að hér hefur farið fram efnisumræða í dag og dagskráin gengið fram eins og niðurstaða atkvæðagreiðslunnar áðan gerir að verkum, að aftur þurfi að taka til við það á morgun að reyna að koma málinu til nefndar. Það er alveg augljóst að það verður enginn árangur í meðferð málsins nema menn setjist yfir það og reyni að vinna með það í (Forseti hringir.) nefndarherbergi fremur en í þingsal.