144. löggjafarþing — 109. fundur,  20. maí 2015.

breytingartillögur við rammaáætlun.

[11:22]
Horfa

Össur Skarphéðinsson (Sf):

Herra forseti. Hæstv. forseti hefur sagt að ekki sé búið að taka ákvörðun um að hverfa frá starfsáætlun þingsins. Hins vegar er verið að kúska hæstv. forseta til. Hæstv. forsætisráðherra hefur tekið af honum ómakið og lýst því yfir að það verði sumarþing. Ég spyr: Ætlar forsetadæmið að láta það yfir sig ganga að það sé niðurlægt af — eins og ég leyfi mér að orða það — einhverjum forsætisráðherra úti í bæ? Á það að vera virðing þingsins?

Hæstv. umhverfisráðherra hóf vegferð sína í þessu máli með því að segja að að minnsta kosti tvær virkjanir yrðu teknar út úr þessari breytingartillögu. Nú er búið að kúska hana til og niðurlægja niður í það að nú er hún bara orðin ein. Aftur er það hæstv. forsætisráðherra sem ákveður það. Þetta er vægast sagt ákaflega skrýtið. Það hefur komið í ljós að þingmenn Sjálfstæðisflokksins gerðu sér ekki grein fyrir því að það hafði komið fram skýr afstaða frá tveimur ráðuneytum um að það sem hér er verið að gera væri ekki í anda laganna. (Forseti hringir.) Mig langar til að spyrja hæstv. forseta: Vissi hann af þessum orðum sem komu frá ráðuneytunum þegar hann kvað upp sinn umdeilda úrskurð?