144. löggjafarþing — 109. fundur,  20. maí 2015.

breytingartillögur við rammaáætlun.

[11:25]
Horfa

Steingrímur J. Sigfússon (Vg):

Herra forseti. Það vorar hægt úti í náttúrunni en það vorar alls ekki neitt á þingi með áframhaldi þessa máls. Ég var að rifja það upp í huganum að á útmánuðum og vorið 2011 minnir mig að umræður um tvær tiltölulega einfaldar þingsályktunartillögur hafi tekið samtals sex vikur. Við höfum varla ráð á slíkum tíma eða þó að það væru þrjár vikur í þetta mál. En við skulum ekkert vera að tala um þetta öðruvísi en það er, herra forseti, þetta er opin umræða. Stjórnarandstaðan er mjög einbeitt og sameinuð í því að láta ekki bjóða sér, þinginu og þjóðinni þennan málatilbúnað og ætlar að nýta rétt sinn í þeim efnum. Þau skilaboð hljóta að fara að komast í gegn þannig að ég held að það sé ekkert að verða nema bara einhver þrjóska að halda þessu áfram. (Forseti hringir.) Við verðum öll saman að finna okkur leið í land út úr þessu.