144. löggjafarþing — 109. fundur,  20. maí 2015.

breytingartillögur við rammaáætlun.

[11:28]
Horfa

Sigríður Ingibjörg Ingadóttir (Sf):

Hæstv. forseti. Öllum ætti að vera ljóst að okkur í minni hlutanum er heitt í hamsi. Við erum mjög ósátt við fundarstjórn forseta. Við komum með málefnalega dagskrártillögu sem var felld í krafti meiri hlutans. Ég ætla að endurtaka þá upprifjun fyrir þingmenn, og nú ekki síst hæstv. forseta, að sá meiri hluti sem skipar þingið er með innan við 50% greiddra atkvæða í síðustu alþingiskosningum en 60% meiri hluta í þinginu. Valdahlutföllin hér inni endurspegla ekki vilja kjósenda. Við í minni hlutanum endurspeglum viðhorf margra, meiri hlutinn endurspeglar viðhorf margra, en það þarf að finna aðra leið en hér hefur verið farin síðustu vikuna til að ná sátt um þingstörfin. Það er lítið eftir því að ekki koma mörg mál frá ríkisstjórninni og við eigum að geta leyst þetta ef tekið er tillit til allra sjónarmiða.