144. löggjafarþing — 109. fundur,  20. maí 2015.

breytingartillögur við rammaáætlun.

[11:32]
Horfa

Valgerður Bjarnadóttir (Sf):

Virðulegi forseti. Oft verður maður samdauna því fólki sem maður er mikið með. Ég ætla samt ekki að trúa því að hæstv. forseti hafi smitast af ákvörðunarfælni ríkisstjórnarinnar sem lýsir sér til dæmis í því að hér koma mál ekki fram sem ríkisstjórnin er þó alltaf að tala um að eigi að koma fram. Þess vegna dettur okkur stundum í hug að við séum í þessari umræðu til að fylla upp í eitthvert gat sem sýnir fram á aðgerðaleysi ríkisstjórnarinnar.

Mig langar til að spyrja hæstv. forseta: Hvenær verður tekin ákvörðun um hvort hér verður sumarþing? Þessi vika er orðin hálf og næsta vika á að vera eftir af þinginu og þó að ekkert okkar hérna telji það eftir sér, ég veit ekki almennilega hvaða orð ég á að nota yfir þetta, ekkert okkar (Forseti hringir.) skirrist við að mæta til þings er það sjálfsögð kurteisi að við vitum að minnsta kosti með hálfs mánaðar fyrirvara hvernig dagskrá okkar verður hagað.