144. löggjafarþing — 109. fundur,  20. maí 2015.

lengd þingfundar.

[11:46]
Horfa

Guðbjartur Hannesson (Sf) (um atkvæðagreiðslu):

Hæstv. forseti. Ég vil eiginlega óska eftir því að hæstv. forseti fresti atkvæðagreiðslunni í svolítinn tíma á meðan við höldum hér öllum stjórnarliðunum i þingsal og við fáum tækifæri til að ræða efnislega og skýra út rammaáætlun. Það hefur komið fram hér ítrekað að menn skortir þekkingu hvað það varðar. Það er heldur enginn vilji fyrir því að ná sátt um dagskrá. Við biðjumst svo sem ekkert undan því að tala lengi en ég ætla enn og aftur óska eftir því að stjórnarliðar komi hér og tjái sínar skoðanir og færi fram rök og ekki síst hæstv. forsætisráðherra, sem blandar sér ávallt í umræðuna í gegnum fjölmiðla og talar svo um mikilvægi þess að ræða og rökræða málin sem við eigum aldrei kost á að gera við hæstv. forsætisráðherra. Ef þetta má verða til þess að við verðum hérna fram í nóttina, að forsætisráðherra finni tíma í sólarhringnum til að vera hér með okkur, þá geri ég enga athugasemd við það. Ég bið hann að vera þá í salnum og gefa kannski upp hvenær hann hefur tækifæri á því að vera hér og eiga orðastað við okkur stjórnarandstæðinga þannig að okkur miði að minnsta kosti eitthvað áfram í umræðunni.