144. löggjafarþing — 109. fundur,  20. maí 2015.

lengd þingfundar.

[11:55]
Horfa

Steingrímur J. Sigfússon (Vg) (um atkvæðagreiðslu):

Herra forseti. Undir venjulegum kringumstæðum á þessum árstíma væri að sjálfsögðu ekkert óvenjulegt við að hér stæðu kvöldfundir. En það má hafa miklar efasemdir um að það þjóni miklum tilgangi að stefna að slíku nú í ljósi aðstæðnanna sem hér eru uppi. Ef kvöldfundur væri um að afgreiða eitthvað af þeim 20–30 málum sem bíða hérna tilbúin, bjarga þeirri uppskeru í hús, væri það ánægjulegt, en það verður ekki ef forseti heldur sig við dagskrá sína. Ef við værum hér með kvöldfund til að ræða þessa grafalvarlegu stöðu á vinnumarkaði sem hefur versnað frá því í gær og ríkisstjórnin náttúrlega gerir minna en ekkert. Andrúmsloftið úr herbúðum aðila vinnumarkaðarins er að ríkisstjórnin þvælist fyrir því að menn komist áfram vegna þess að hún hefur gefið í skyn að hún hafi vilja til að koma að lausn deilunnar, en síðan fást aldrei nein svör. Það er því almannarómur á vinnumarkaði að ríkisstjórnin þvælist fyrir því að menn komist áfram. Þá er það þess virði að halda kvöldfund. En það hefst ekkert upp úr kvöldfundi við óbreyttar aðstæður hér í þinginu.