144. löggjafarþing — 109. fundur,  20. maí 2015.

lengd þingfundar.

[12:04]
Horfa

Árni Páll Árnason (Sf) (um atkvæðagreiðslu):

Virðulegi forseti. Eftir þá háðulegu uppákomu sem varð hér áðan þegar hv. þm. Guðlaugur Þór Þórðarson, varaformaður þingflokks Sjálfstæðisflokksins, kom hér upp og sýndi að hann vissi ekki einu sinni hvers eðlis umræðan væri, hvar við værum stödd í henni og áttaði sig ekki á því að hér er um að ræða síðari umr. um þingsályktunartillögu, ja, eftir þessa háðulegu uppákomu hélt ég að stjórnarmeirihlutinn vildi ekki setja á kvöldfund til að teygja enn frekar á þessari ráðleysislegu för sem hann hefur lagt af stað í. (Gripið fram í.) Frá hv. þm. Ásmundi Friðrikssyni hér í gærkvöldi liggur fyrir eindreginn vilji til að leita sátta. Þingmaður úr meiri hluta atvinnuveganefndar segist vilja samstarf og samstöðu. Er ekki rétt að taka í þá hönd, setjast yfir málið, vísa því aftur til atvinnuveganefndar þannig að við fáum þá til umræðu í þingsal tillögu (Forseti hringir.) sem er þingtæk, boðleg og við vitum hvers efnis er?