144. löggjafarþing — 109. fundur,  20. maí 2015.

kvöldfundur og umræðuefni fundarins.

[15:03]
Horfa

Guðbjartur Hannesson (Sf):

Hæstv. forseti. Við höfum gjarnan rætt það við hæstv. forseta hvernig dagskrá er háttað á þinginu. Nú er það þannig að tekin var ákvörðun um að ramminn yrði á áætlun í dag, en það kom líka fram í morgun að hv. mennta- og menningarmálaráðherra væri kominn til landsins og það er gríðarlega mikilvægt að fá tækifæri til þess að eiga orðastað við hann um ýmislegt sem er að gerast núna. Á sama tíma og við sitjum hér í þinginu fer hæstv. ráðherra um héruð, boðar sameiningar á skólum, biðlar til okkar um að bjarga málum varðandi Tónlistarskólann í Reykjavík. Nú eru starfandi starfshópar sem fá fyrirmæli um að gera ákveðna hluti, allt utan þingsins, allt án þess að allsherjar- og menntamálanefnd fái að vita af því, án þess að það sé í samræmi við hvítbók sem viðkomandi hæstv. ráðherra hefur lagt fram. Það er eins mikil lítilsvirðing við þingið og hægt er að sýna. Ef það er stutt af framsóknarmönnum og öðrum sem hér eru í þingsal og þeir ætla að sitja undir þessu þegjandi og hljóðalaust hef ég misskilið eitthvað. (Forseti hringir.) Ég treysti á að við fáum tækifæri til að ræða þetta áður en við kveðjum á vorþingi.