144. löggjafarþing — 109. fundur,  20. maí 2015.

kvöldfundur og umræðuefni fundarins.

[15:04]
Horfa

Kristján L. Möller (Sf):

Hæstv. forseti. Því miður virðist það ætla að verða raunin að við höldum áfram að ræða rammaáætlun og þá slæmu breytingartillögu sem meiri hlutinn gerði. Ég harma að það eigi að keyra það mál fram í kvöld. Ég hvet enn þá til þess að þessar ólánstillögur verði dregnar til baka og reynt að vinna sátt í málinu. En það sem ég vildi gera er akkúrat það sama og félagi minn, hv. þm. Guðbjartur Hannesson. Ég tók eftir því í morgun að menntamálaráðherra er kominn til þings á ný. Hann hefur verið fjarverandi að ég held í hálfan mánuð. Ég hef óskað eftir því að eiga við hann sérstaka umræðu um sameiningu framhaldsskóla sem allra fyrst og ræða það að hann sendi embættismenn sína um landið í skjóli nætur og hóti í raun skólayfirvöldum sameiningu þar sem áform eru ekki kynnt, heldur er tilkynnt að ráðuneytið hafi tekið ákvörðun um að sameina ýmsa skóla og að sameinaðir skólar eigi allir að taka til starfa í haust.

Virðulegi forseti. Það eru til dæmis hugmyndir um að sameina Menntaskólann á Ísafirði (Forseti hringir.) Fjölbrautaskóla Norðurlands vestra á Sauðárkróki. Það eru hugmyndir um sameiningar við utanverðan Eyjafjörð og í Þingeyjarsýslum, Framhaldsskólann á Húsavík og á Laugum (Forseti hringir.) o.s.frv. Þetta er myrkraverk sem ég tel að ráðherrann hafi ekki heimild (Forseti hringir.) til að gera án aðkomu Alþingis. Ég krefst þess að menntamálaráðherra (Forseti hringir.) verði sem allra fyrst hér til að svara spurningum um þetta mál.