144. löggjafarþing — 109. fundur,  20. maí 2015.

kvöldfundur og umræðuefni fundarins.

[15:06]
Horfa

Árni Páll Árnason (Sf):

Virðulegi forseti. Ég vil taka undir með hv. þm. Kristjáni L. Möller hér. Það er auðvitað mjög sláandi að á meðan mönnum er haldið hér í umræðum um tillögu sem ekki stenst lagaákvæði, ekki er ljóst hvers efnis hún er og ekki er ljóst með hvaða hætti stjórnarliðar ætla sér að fylgja fram, er menntamálaráðherra landsins að vinna spellvirki á framhaldsskólum vítt og breitt um landið. Hann gengur fram án nokkurs lýðræðislegs umboðs. Það fer engin umræða fram í þingsölum um hugmyndir um að sameina skóla holt og bolt, vítt og breitt um landið, en með því er verið að draga úr tækifærum fólks í hinum dreifðu byggðum til að afla sér framhaldsmenntunar. Það kemur ofan í þau skemmdarverk sem hann er þegar búinn að vinna með því að hætta að greiða fyrir fólk yfir 25 ára aldri í bóknám í framhaldsskólum. Það eru auðvitað hlutir sem við ættum að vera að ræða hér til viðbótar við stöðuna á vinnumarkaði og önnur brýn mál sem bíða í samfélaginu, en ekki þessa fáránlegu tillögu sem ekki stenst lagaákvæði.