144. löggjafarþing — 109. fundur,  20. maí 2015.

störf þingsins.

[15:09]
Horfa

Lilja Rafney Magnúsdóttir (Vg):

Herra forseti. Undir liðnum um störf þingsins held ég að rétt sé að ræða lýðræðið yfir höfuð, hvernig menn nálgast lýðræðið þessa dagana þegar við tökumst á um stór og alvarleg mál eins og rammaáætlun og stór og alvarleg mál sem bíða afgreiðslu, eins og makrílfrumvarpið og veiðigjöldin. Allt er þetta umræða um sameiginlegar auðlindir þjóðarinnar og þingmenn í stjórnarmeirihluta hverju sinni geta ekki gengið þar fram með offorsi og ákveðið hvernig þeim hlutum er ráðstafað. Það þarf að taka tillit til allra, líka til þeirra sem eru fulltrúar lýðræðisins á þingi og eru í minni hluta hverju sinni. Þannig þarf að vinna ef menn ætla að ná niðurstöðu sem heldur til lengri tíma. Ekki vilja menn hafa hlutina þannig að á fjögurra ára fresti séu þeir rifnir upp með rótum og menn byrji aftur frá grunni.

Menn hljóta að sjá að það er eftirspurn eftir því í þjóðfélaginu að farið sé að vinna með fólki, hlustað á raddir fólks og tekið tillit til þeirra og ekki sé gengið fram á móti almenningi og lýðræðinu í landinu með hnefana á lofti og hausinn undir hendinni, það er kannski ekki rétta orðið yfir þetta, en að menn setji ekki undir sig hausinn og böðlist áfram í grafalvarlegum málum eins og rammaáætlun, þar sem verið er að brjóta lögformlega ferla, og í málum eins og makrílnum, þar sem ekki er hægt að sætta sig við að við séum að gefa þá auðlind örfáum einstaklingum.