144. löggjafarþing — 109. fundur,  20. maí 2015.

störf þingsins.

[15:16]
Horfa

Elsa Lára Arnardóttir (F):

Hæstv. forseti. Ég ætla að ræða málefni Þroskahjálpar á Vesturlandi en mig langar aðeins að taka upp þráðinn frá hv. þm. Guðlaugi Þór Þórðarsyni og taka undir orð hans um að það er með öllu óþolandi að sjá vinnubrögð þeirra fjármálastofnana sem nýta þá góðu leið sem séreignarsparnaðarleiðin er, og getur hjálpað einstaklingum sem eru með verðtryggð húsnæðislán að minnka skuldastabbann, að þær fari þá leið að taka þetta inn á vexti en ekki höfuðstól. Það er gríðarlega mikilvægt að það sé sett pressa á fjármálastofnanirnar um að haga málum eins og lögin gera ráð fyrir, að þetta fari inn á höfuðstól lánanna.

Ég er búin með helminginn af tímanum en það sem mig langaði til að ræða er að ég fór á fund Þroskahjálpar á Vesturlandi á dögunum. Þar voru einnig landssamtökin Þroskahjálp og þar voru meðal annars rædd málefni fatlaðra á Vesturlandi. Umræðan var að miklu leyti um skammtímavistanir en í máli fundargesta kom fram að engin slík er til staðar á Vesturlandi. Þeim var lokað í byrjun árs 2013 eða um mitt ár 2013, mismunandi eftir því hvor stofnunin var. Það var talað um að þegar stofnunum væri lokað ættu ný úrræði að koma í staðinn en það hefur ekki gerst. Það er mikilvægt að þeir sem þurfa á þjónustunni að halda hafi einhvern vettvang til að hitta jafningja sína og eiga við þá félagsleg samskipti. Það er okkur öllum mikilvægt.

Ég vildi bara minnast á þetta því að núna er að störfum nefnd innan velferðarráðuneytisins sem er að meta tilfærsluna um að setja verkefnið málefni fatlaðra frá ríki til sveitarfélags og mikilvægt að niðurstaða komi sem fyrst í þau mál til að hægt sé að finna út hvaða þjónustu eigi að veita hér og þar um landið í málefnum fatlaðra. (Forseti hringir.) Það er mikilvægt að allir geti staðið við sinn hluta af þeim samningum.