144. löggjafarþing — 109. fundur,  20. maí 2015.

störf þingsins.

[15:20]
Horfa

Katrín Júlíusdóttir (Sf):

Virðulegi forseti. Já, við erum rík þjóð en auðæfunum er ansi misskipt. Það er vandinn og þess vegna er hér allt logandi í verkföllum í okkar samfélagi og deilum á vinnumarkaði. Hvað sjáum við annað í fréttum en að tvær vikur séu í að hér verði eitt stærsta verkfall sem við höfum nokkurn tímann séð? Menn geta ekki verið í afneitun gagnvart því og falið sig á bak við umræður um rammaáætlun sem eru að mínu mati eitthvað það vitlausasta sem við gætum tekið okkur fyrir hendur á þinginu á þessum tímapunkti. Þetta er það sem stjórnarmeirihlutinn hefur ákveðið að gera, þetta eru þau forgangsmál sem stjórnarmeirihlutinn hefur ákveðið að séu sín.

Ég kom hingað vegna þess að ég vildi eiga orðastað við hv. þm. Þórunni Egilsdóttur sem mér er sagt að sé núna á þingflokksformannafundi. Það breytir ekki öllu, hún getur svarað mér hér síðar. Það eru fleiri mál sem bíða okkar á þessu þingi. Við erum að tala um húsnæðismálin og við erum líka að tala um samgönguáætlun. Ég veit ekki betur en að það séu tveir mánuðir síðan farið var með hana inn í ríkisstjórn og mér skilst að hún sé núna föst hjá þingflokki framsóknarmanna. Hvar er samgönguáætlunin? Hún hefur ekki komið inn á þetta þing það sem af er þessu kjörtímabili. Eru menn bara hættir að vinna? Er þessi ríkisstjórn verklaus á öllum sviðum? Það er ekki einu sinni hægt að fara í samgönguáætlun. Það er ekki hægt að fara í lögbundna hluti sem mönnum er ætlað að sinna.

Tvö ár eru liðin af þessu kjörtímabili. Hvað er þessi ríkisstjórn að gera? Hvað er þessi stjórnarmeirihluti að gera? Hann skilar engu, hann skilar ekki nokkrum sköpuðum hlut og hann ræður ekki við að skila inn samgönguáætlun. Getur það verið vegna þess sem við sjáum í ríkisfjármálaáætlun að menn ætli ekki neina fjármuni í uppbyggingu í samgöngugeiranum? (Forseti hringir.)

Þetta gengur ekki svona lengur. Þessi ríkisstjórn verður að fara að skila einhverju af því sem talað er um, þótt ekki sé annað en að standa undir lögbundnu hlutverki sínu.