144. löggjafarþing — 109. fundur,  20. maí 2015.

störf þingsins.

[15:25]
Horfa

Brynhildur Pétursdóttir (Bf):

Virðulegi forseti. Ég las um það í fréttum að hæstv. fjármálaráðherra þætti kominn tími til að laga þingsköpin, hér þyrfti ýmsu að breyta og það fannst mér áhugavert. Mér fannst svolítið eins og hann væri fyrsti maðurinn sem væri að stinga upp á þessu miðað við umræðuna en vil þó benda á að tvisvar hafa verið flutt mál á þingi sem miða að því að koma einhverjum böndum á ræðutíma þingmanna og margoft höfum við, m.a. sú sem hér stendur, rætt um þessi mál í þingsal.

Þegar við ræðum við stjórnarherrana um stöðu mála vísa þeir gjarnan í þingmálaskrána. Það er plagg sem ekki er mikið að marka. Það er fullt af málum á þingmálaskránni sem stjórnvöld leggja ekki fram og það eru önnur mál sem stjórnvöld ætla að leggja fram eða hafa lagt fram sem eru ekki á þingmálaskránni. Hún er ekki góður vitnisburður um það sem við munum ræða á þinginu.

Það sem mig langar til að ítreka, ég talaði um það fyrir mánuði, er að kalla eftir því að forustumenn ríkisstjórnarinnar setjist niður með stjórnarandstöðunni og segi hvaða mál liggja fyrir þinginu þennan síðasta mánuð. Við í Bjartri framtíð getum í hverju einasta máli sagt fyrir fram hvað við viljum tala lengi, hvaða mál skipta þannig máli og hvaða mál mættu í rauninni fara í gegn án þess að við hefðum nokkuð um þau að segja. Þetta á örugglega við um alla flokka en það er ekki einu sinni gerð tilraun til þess. Við verðum vissulega að reyna að breyta þingsköpum en ég sé það samt ekki endilega gerast. Það sem er hægt að gera er að setjast niður, ræða saman og vera með uppbyggileg samskipti. (Forseti hringir.) Það eru stjórnarherrarnir sem verða að vera tilbúnir í það og ég kalla eftir því enn og aftur að þeir setjist niður með okkur og segi okkur hvað er fram undan.