144. löggjafarþing — 109. fundur,  20. maí 2015.

störf þingsins.

[15:33]
Horfa

Bjarkey Gunnarsdóttir (Vg):

Herra forseti. Hv. þm. Framsóknarflokksins, Willum Þór Þórsson, vill reyna að horfa björtum augum á það sem hér er að gerast og er einn af þeim fáu, held ég, sem það gerir í ljósi ástandsins. Hér var verið að fara yfir það að vissulega er ástandið betra hjá þeim sem ættu að geta bætt kjör hins almenna launamanns. Hér er allt í hnút. Stjórnarmeirihlutinn getur ekki firrt sig þeirri ábyrgð að koma að því að leysa kjaramálin. Eins og ég hef áður sagt getur þingið skapað umgjörðina sem skiptir miklu máli þegar kemur að því að leggja inn í kjaramálin. Það er hann ekki að gera.

Formaður samninganefndar BHM segir að allt sé fast, það séu bara engar viðræður í gangi og ríkið neiti að koma með nokkurn hlut að borðinu. Hæstv. fjármálaráðherra hefur staðfest að hann telji allt óábyrgt sem hann eða hans ríkisstjórn leggur ekki til. Allt annað er ómögulegt.

Við fáum fréttir af því að Alþýðusambandið segi að SA beri vott um takmörkuð veruleikatengsl sem herði hnútinn í kjaradeilunum. SA hefur beitt þeirri pólitík að gera kannanir hjá eigin félagsmönnum og misnota þær í áróðursskyni.

Virðulegi forseti. Menntamálaráðherra er aðallega í útlöndum þó að mér skiljist að hann sé kominn til landsins núna. Hann ríður um héruð eða hans fólk og gerir tilraunir til skemmdarverka í menntamálum. Byggðamálin eru í algjörum ólestri og engin samgönguáætlun hefur litið dagsins ljós. Ég held að það sé kominn tími til að þessi ríkisstjórn skili lyklunum. (Gripið fram í: Heyr, heyr.)