144. löggjafarþing — 109. fundur,  20. maí 2015.

störf þingsins.

[15:39]
Horfa

Katrín Júlíusdóttir (Sf):

Virðulegi forseti. Þetta fer að verða æsispennandi. Ég þakka fyrir þessar upplýsingar. Ég heyrði því fleygt að hún væri föst í þingflokki Framsóknarflokksins en nú er hún greinilega föst einhvers staðar annars staðar. Þá er einn staður sem kemur til greina og það er þingflokkur Sjálfstæðisflokksins. Ég velti fyrir mér hvað valdi því að við höfum ekki enn þá séð þessa samgönguáætlun. Líklegast er ekki neitt í henni, það er eina skýringin sem ég get fundið á þessu, að hún birti það að menn hafa enga sérstaka sýn á samgöngumálin til skemmri og lengri tíma og treysti sér þess vegna ekki til að afgreiða samgönguáætlunina.

Ég leiðrétti mig þá hér með, hún er þá greinilega föst í þingflokki Sjálfstæðisflokksins sem er þingflokkur ráðherrans sjálfs þannig að ég held að það væri ferðarinnar virði ef menn kæmu hingað og gerðu okkur grein fyrir því hvað veldur. Það er lögbundið hlutverk ráðherrans að leggja fyrir okkur samgönguáætlun. Samgönguáætlun er gríðarlega mikilvæg. Það sem í henni er hefur mikilvæg og þýðingarmikil áhrif á lífsgæði fólks um allt land og það sem úr henni er framkvæmt. Þess vegna skiptir máli að við förum að sjá með hvaða hætti menn ætla að vinna með hana.

Þá er líka gott að minnast þess að í ríkisfjármálaáætlun sem hefur verið hér til umfjöllunar er ekki að sjá að settir verði neinir fjármunir af viti í samgöngumál á komandi árum. Það er líklega það sem menn eru feimnir við að sýna svart á hvítu í nýrri samgönguáætlun. Ég hlýt að kalla eftir því að við förum að fá einhver svör við þessu.

Aftur ætla ég að nota tækifærið hér til að hvetja hv. stjórnarþingmenn til að sjá að sér, hætta að þráast við með rammann og taka frekar í útrétta sáttarhönd okkar í stjórnarandstöðunni um að fara að takast sameiginlega á við erfið mál sem snúa að deilum á vinnumarkaði. (Gripið fram í: Heyr, heyr.)