144. löggjafarþing — 109. fundur,  20. maí 2015.

störf þingsins.

[15:41]
Horfa

Valgerður Bjarnadóttir (Sf):

Forseti. Það er ekki oft sem maður þarf ekki að vakna fyrir kl. 8 á morgnana til að komast að í þessum lið. Ég fæ tækifæri í dag og ég ætla að notfæra mér það. Mér fannst merkileg þau tíðindi sem hv. þm. Elsa Lára Arnardóttir flutti hérna áðan og ætla að leggja út af þeim. Þau varða einmitt störf þingsins vegna þess að hún segir að 25. apríl hafi þingflokkur Framsóknarflokksins afgreitt samgönguáætlun út úr sínum þingflokki. Nú er 20. maí, samkvæmt starfsáætlun eru fimm dagar eftir af þinginu og þessi samgönguáætlun er ekki enn komin hingað. Þetta lýsir verkstjórninni og öllu því sem er í þinginu og þá hlýtur maður að spyrja í framhaldinu: Er rétt til getið hjá flokkssystur minni, hv. þm. Katrínu Júlíusdóttur, að samgönguáætlunin sé föst í þingflokki Sjálfstæðisflokksins? Kannski er ekkert í henni þannig að þau vilja ekki sýna hana. Það getur svo sem verið ein ástæðan.

Mig langar líka aðeins að leggja út af orðum hv. þm. Þorsteins Sæmundssonar sem segist hafa fylgst með því sem hér hafi gerst undanfarna daga þó að hann hafi ekki getað verið viðstaddur. Hann segir að við í minni hlutanum höfum lagst þversum fyrir framfaramál sem þurfi að komast áfram. Það er ekki rétt, virðulegi forseti, að við höfum lagst þversum fyrir stjórnartillögu um rammaáætlun, tillögu um Hvammsvirkjun. Við höfum hreint ekki gert það. Við höfum hins vegar lagst þvert fyrir þá (Forseti hringir.) ólánstillögu að fjórir kostir sem ekki hafa verið afgreiddir af verkefnisstjórn samkvæmt lögum séu lagðir fram. Þar erum við þversum og verðum áfram.