144. löggjafarþing — 109. fundur,  20. maí 2015.

húsnæðismál.

[16:01]
Horfa

Árni Páll Árnason (Sf):

Virðulegi forseti. Það er kunnara en frá þurfi að segja að ástandið á húsnæðismarkaði er gríðarlega alvarlegt. Ungt fólk upplifir það að komast ekki að heiman, geta ekki eignast sína fyrstu íbúð, ráða ekki við að leggja fram útborgun og það er ekki eins og leigumarkaðurinn sé raunverulegur valkostur fyrir fólk því að leiga á lítilli íbúð er gjarnan tvöföld á við afborgun af húsnæðisláni fyrir jafn stóra íbúð. Staðan er því sannarlega erfið. Við það bætist að aukin ásókn í útleigu íbúða til ferðamanna hefur líka dregið úr framboði á íbúðum til almennrar útleigu og þar með gert þennan vanda enn torveldari úrlausnar. Við í Samfylkingunni höfum kallað eftir því frá upphafi þessa kjörtímabils að gengið verði í það að grípa til aðgerða til að takast á við þennan alvarlega vanda. Við lögðum fram þingsályktunartillögu haustið 2013 sem var samþykkt hér fyrir réttu ári síðan með hvatningu til ríkisstjórnarinnar um fjölbreyttar aðgerðir en það hefur orðið sorglega lítið um aðgerðir á grundvelli þeirrar tillögu og ekki eitt einasta þingmál komið hingað inn sem raunverulega er útfærsla á þeim tillögum sem þar var að finna.

Virðulegi forseti. Staðan er snúin, vaxtabætur hafa hrunið að verðgildi í tíð þessarar ríkisstjórnar og eru nú þriðjungur af því sem þær voru þegar best lét í tíð síðustu ríkisstjórnar. Það er brýnt að auka húsnæðisstuðning við fólk. Það er heldur ekki búið að hækka húsaleigubætur sem er brýn þörf að gera. Lengi hafa legið fyrir tillögur um heildstætt kerfi húsnæðisbóta sem jafni aðstöðumun milli þeirra sem leigja og þeirra sem eiga, en ekki orðið að framkvæmdum í tíð núverandi ríkisstjórnar. Í skuldalækkunaraðgerðum ríkisstjórnarinnar voru leigjendur algjörlega skildir eftir og líka búseturéttarhafar. Fjórðungur þess fólks sem er með verðtryggðan húsnæðiskostnað var því skilinn eftir og settur skör lægra en þeir sem búa í eigin húsnæði. Enn bólar ekkert á aðgerðum fyrir þá hópa sem þó hefur margsinnis verið lofað. Það hefur heldur ekkert sést til að bæta úr brýnni þörf fyrir félagslegt húsnæði. Við höfum ítrekað lagt fram tillögur um að útleiga einstaklinga á einni íbúð verði gerð frádráttarbær, verði gerð skattfrjáls til að auka framboð af leiguhúsnæði. Það er fjöldi fólks sem veigrar sér við að leigja út frá sér eða er að leigja til ferðamanna í dag sem gæti frekar kosið að leigja til almennrar útleigu ef það fengi þessa hvatningu frá hinu opinbera. Þetta mundi vonandi hafa strax áhrif til að fjölga íbúðum á markaði.

Við höfum líka lagt til að nýttar verði ónýttar lóðir ríkisins til að greiða fyrir byggingu minni leiguíbúða og að sveitarfélögum verði auðveldað að fjölga félagslegum íbúðum, bæði með því að breyta reglum um skuldaþak sveitarfélaga svo að skuldir vegna íbúðarkaupa teljist ekki til almennra skulda og að heimila ríkinu að niðurgreiða beint lántökur sveitarfélaga til bygginga eða kaupa á félagslegu húsnæði án þess að gerð sé krafa um að lán séu tekin hjá Íbúðalánasjóði eins og gert er í dag, vegna þess að stór sveitarfélög eins og Reykjavíkurborg geta fengið betri kjör á markaði en bjóðast á lánum frá Íbúðalánasjóði og engin sérstök ástæða til að pína Reykjavíkurborg til að taka lán hjá Íbúðalánasjóði og fá síðan niðurgreiðslu á þá vexti. Það er mun hagkvæmara fyrir alla að Reykjavíkurborg taki einfaldlega lánið beint og fái niðurgreiðslu á þá vexti beint.

Við höfum ítrekað rætt líka um breytingar á byggingarreglugerð til að hægt sé að byggja ódýrara húsnæði og síðast tók framkvæmdastjóri Samtaka iðnaðarins undir það í grein í Fréttablaðinu í gær.

Á landsfundi Samfylkingarinnar lögðum við svo til nýjar tillögur til að mæta vanda fyrstu íbúðarkaupenda. Þróa þarf kerfi viðbótarlána með ríkisstuðningi til að gera ungu fólki kleift að kaupa sína fyrstu íbúð og tryggja tekjulágu fólki þak yfir höfuðið. Það þarf að þróa nýtt kerfi bundinna húsnæðissparnaðarreikninga sem veita skattafslátt til fyrstu íbúðarkaupa og séu ekki þannig að nýtist bara þeim sem eru á vinnumarkaði heldur líka námsmönnum.

Virðulegi forseti. (Forseti hringir.) Það er orðið brýnt að fá að sjá aðgerðir ríkisstjórnarinnar í öllum þessum málum og því er orðið mjög aðkallandi að ríkisstjórnin komi fram með skýra sýn um úrlausnir á öllum þessum þáttum. Það liggja fyrir ítarlegar tillögur. Aðgerða er þörf.