144. löggjafarþing — 109. fundur,  20. maí 2015.

húsnæðismál.

[16:17]
Horfa

Guðlaugur Þór Þórðarson (S):

Virðulegi forseti. Ég heyri hjá flestum ákveðinn samhljóm sem er ánægjulegt í þessari umræðu. Ég vil sérstaklega lýsa yfir ánægju með ummæli hæstv. ráðherra um mikilvægi þess að koma upp kerfi þar sem fólki verður hjálpað við að spara og eignast sitt húsnæði. Við erum búin að vera með fullkomlega galið kerfi. Við höfum sett gríðarlegar fjárhæðir í að hvetja fólk í rauninni til þess að skulda í stað þess að hjálpa þeim við að eignast. Við verðum að snúa þessu við, það er grundvallaratriði. Auðvitað þurfum við að endurskoða stuðning við leigjendur eins og hæstv. ráðherra vísar til og ánægjulegt að heyra þennan samhljóm um það að breyta byggingarreglugerð með það að markmiði að hjálpa aðilum að byggja ódýrar íbúðir. Það má færa rök fyrir því að við séum að gera allt til að koma í veg fyrir að hér sé hægt að byggja ódýrar íbúðir.

Bleiki fíllinn sem enginn vill hins vegar ræða og það skil ég ekki, ég verð að viðurkenna að ég skil það ekki og finnst umræðan oft vera alveg ótrúlega skrýtin, virðulegi forseti, er húsnæðisbankinn. Við erum búin að setja núna 55 þús. milljónir í húsnæðisbankann, ríkisrekna húsnæðisbankann. Það eru 1.833 íbúðir komplett ef við tökum þær á svona 30 milljónir. Það er einn Landspítali ef við förum út í slíkan samanburð. Vandinn er að fólk vill ekki vera í viðskiptum við þann banka. Það eru uppi hugmyndir og það er búið að fara í gegnum þær að við getum hætt þessu og verið samt sem áður með lánafyrirkomulag sem getur nýst öllum, þar þurfum við ekki að leita lengra en til frænda vorra Dana.

Eitt annað sem aldrei er rætt en er gríðarlega stórt vandamál er lóðaframboð á höfuðborgarsvæðinu. Það verður að snúa ofan af þeirri lóðaskortsstefnu sem hefur verið í Reykjavík á undanförnum áratugum. Það er bara nokkuð sem við verðum að gera því ef hér er ekki nægilegt framboð á húsnæði og eða lóðir eru of dýrar þá skiptir voða litlu máli hvað við gerum, kostnaður við að byggja mun alltaf verða gríðarlega hár. (Forseti hringir.) Þetta á auðvitað ekki bara við Reykjavík, en Reykjavík er langstærsta sveitarfélagið og við þurfum að líta sérstaklega til þess.