144. löggjafarþing — 109. fundur,  20. maí 2015.

húsnæðismál.

[16:20]
Horfa

Birgitta Jónsdóttir (P):

Forseti. Ég þakka fyrir þessar umræður. Ég hef rosalega miklar áhyggjur af ástandinu á leigumarkaði, mjög miklar. Og það sem ég hef áhyggjur af er að miðað við þessar tillögur sem maður á náttúrlega eftir að geta lesið úr og séð í stóra samhenginu, þá taka þessar húsnæðisbætur sem eiga þá að leysa af hólmi húsaleigubætur ekki gildi fyrr en árið 2017. Mig langar að spyrja ráðherrann hvort það sé eitthvað annað sem ráðherrann ætli að gera til að bregðast við hinum brýnu vandamálum sem leigjendur standa frammi fyrir í dag.

Ég hegg eftir því að í kynningu á þessu á RÚV er verið að miða við til dæmis 100 þús. kr. húsaleigu á mánuði fyrir fjölskyldu. Ég verð bara að upplýsa hæstv. ráðherra um það að fólk fær hvergi húsnæði í Reykjavík á 100 þús. kr. ef það ætlar að vera með meira en eitt herbergi. Það er jafnvel ekki einu sinni hægt að fá stúdíóíbúðir á því verði fyrir einstaklinga. Það er því mjög brýnt og ég vil hvetja ráðherra — ég hef tekið eftir umræðum um þessa tölfræði hjá félagi leigjenda og fleirum sem búa við þennan veruleika að fólki finnst svona tölfræði og viðmið nánast móðgun, að ráðuneytið sem á að vinna á þessu bráðavandamáli sé ekki í betri tengslum við veruleikann en þetta. Við verðum náttúrlega að vera með viðmið sem eru tengd því sem er á borðinu í dag. Þessi tölfræði hefði kannski átt við árið 2005.

Ég vil hvetja ráðherrann til að koma með þessi frumvörp og mæla fyrir þeim þannig að hægt sé að fá umsagnir um þau í sumar og klára að kostnaðarmeta þau þannig að hægt sé að gera þetta strax í haust.