144. löggjafarþing — 109. fundur,  20. maí 2015.

húsnæðismál.

[16:22]
Horfa

Sigríður Ingibjörg Ingadóttir (Sf):

Hæstv. forseti. Ljóst er að staða leigjenda er mjög alvarleg og hefur verið um langa hríð. Félagslegt húsnæði hefur verið til lengi á Íslandi, fyrst með verkamannabústöðunum sem illu heilli voru lagðir niður og inn komu 3,5% lán þess í stað. Nú hefur verið unnin stefnumótun um að koma á stofnstyrkjakerfi til að auka framboð á húsnæði og til að draga úr húsnæðiskostnaði fólks.

Leiðin til að lækka leiguverð er auðvitað fyrst og fremst að auka framboð á leiguhúsnæði. Síðan þarf að hækka húsaleigubætur eða húsnæðisbætur til þeirra sem eru á leigumarkaði þannig að stuðningur verði svipaður óháð því hvert búsetuformið er, hvort sem fólk leigir eða á húsnæðið, en miðað sé við húsnæðiskostnað, framfærslukostnað og tekjur. Það er hin rétta leið til þess að mæta leigjendum. En til að framboðið aukist þarf að koma á stofnstyrkjakerfi. Nú virðist eitthvað vera óljóst hvernig eigi að lenda þessum málum. Ég vil nota tækifærið hér í umræðunni til þess að hvetja ráðherra til að vera trú þeirri stefnu sem var mörkuð í miklu samráði sem mikill einhugur var um, bæði hjá stjórnmálaflokkunum, aðilum vinnumarkaðarins en ekki síst Sambandi íslenskra sveitarfélaga, sem auðvitað leikur lykilhlutverk í því, þ.e. sveitarfélögin, að tryggja lóðir og vinna með þeim félögum sem rekin eru án hagnaðarsjónarmiða og vilja koma hér upp alvöruleigumarkaði. Þannig tryggjum við framboð á húsnæði, þannig tryggjum við húsnæðisöryggi og með húsnæðisbótakerfi tryggjum við aðstoð við fólk á leigumarkaði til jafns við þá sem eiga sitt húsnæði.