144. löggjafarþing — 109. fundur,  20. maí 2015.

húsnæðismál.

[16:26]
Horfa

Steinunn Þóra Árnadóttir (Vg):

Hæstv. forseti. Ég þakka fyrir þessa umræðu því að ég held að við séum öll sammála um að húsnæðismálin eru með mikilvægustu málum sem við ræðum hér, þó svo að við höfum kannski einhverjar deildar meiningar um það hvernig þeim sé best fyrir komið.

Hæstv. ráðherra sagði í máli sínu áðan að hún leitist við að horfa heildstætt á húsnæðismálin, það held ég að sé gott. Mér þykir það hins vegar ekki mjög gæfuleg byrjun að í frumvarpi um breytingar á húsaleigulögum, sem er þó eitt af þeim frumvörpum hæstv. ráðherra sem þegar eru komin fram, er lagt til að fella alveg út 3. mgr. 2. gr. laganna, sem mun rústa þó því kerfi, húsnæðiskerfi sem hér er rekið á félagslegum grunni og veitir þúsundum einstaklinga húsnæði. Þetta finnst mér mjög alvarlegt mál.

Hér hefur aðeins verið minnst á breytingar á byggingarreglugerð, ég hef nefnt það áður og ég ætla að gera það aftur núna. Hér megum við ekki láta glepjast af skammtímahugsun og slá af kröfum um aðgengi, því að þörfin fyrir vel aðgengilegt húsnæði mun einungis aukast á komandi árum. Þjóðin er að eldast, það er mjög dýrt, eins og við höfum oft rætt hér, að byggja hjúkrunarheimili en stefnan er að fólk geti búið sem lengst heima. Til þess að sú stefna gangi upp þurfum við vel aðgengilegt húsnæði og þess vegna verðum við að hugsa þetta mál í samhengi.