144. löggjafarþing — 109. fundur,  20. maí 2015.

húsnæðismál.

[16:29]
Horfa

Brynhildur Pétursdóttir (Bf):

Virðulegi forseti. Ég þakka málshefjanda fyrir þessa umræðu, hún er mjög mikilvæg. Ég vil líka nota tækifærið og hvetja hæstv. húsnæðismálaráðherra áfram í sínum störfum. Ég er mjög hlynnt þeim hugmyndum sem ég hef heyrt frá henni um þau frumvörp sem varða húsnæðisbætur og einnig leigufélög. Það eru mikilvæg og góð mál og ég efast ekki um að þingið mun ekki bregða fæti fyrir þau. Ég hvet ráðherra til að leggja þau fram hið fyrsta.

Mig langar aðeins til ræða um vaxtastigið á Íslandi. Þegar við tölum um háan húsnæðiskostnað þá skiptir vaxtastigið í landinu auðvitað máli. Við erum með íslensku krónuna og óhjákvæmilega er þá vaxtastigið hærra en það þyrfti að vera. Ég er ekki að segja að hið háa vaxtastig sé alfarið krónunni að kenna, það hafa auðvitað margir þættir áhrif á vaxtastig, en ég held að ég geti fullyrt að vaxtastigið er hærra en það þyrfti að vera vegna þess að við erum með þennan litla gjaldmiðil sem nýtur lítils trausts. Ég held að við borgum eina 8 milljarða í ár í vaxtabætur og mér finnst það svolítið sérkennilegt að ríkið og skattgreiðendur borgi fólki bætur vegna vaxtakostnaðar sem er svo hár í staðinn fyrir að ræða það að taka upp annan gjaldmiðil og lækka vaxtakostnað. Þetta er svolítið brenglað millifærslukerfi ef út í það er farið. Þess vegna er það líka svo mikilvæg og góð hugmynd með húsnæðisbæturnar sem ég veit að hefur verið lengi í umræðunni og gera ekki greinarmun á þeim sem leigja og þeim sem eiga og ýta undir séreignarstefnuna.

Mig langar að endingu að benda á að ég hefði frekar viljað að Framsóknarflokkurinn hefði sett þetta mál á oddinn en skuldaleiðréttinguna. Í hana fara einir 100 milljarðar og ég held að milljarðarnir sem um er að ræða varðandi þessi mál hæstv. ráðherra (Forseti hringir.) séu miklum mun færri og hefði mátt nýta peningana betur í þau.