144. löggjafarþing — 109. fundur,  20. maí 2015.

húsnæðismál.

[16:31]
Horfa

Ragnheiður Ríkharðsdóttir (S):

Virðulegur forseti. Ég þakka sömuleiðis fyrir þessa umræðu. Við ræðum hér búsetuform. Við tölum annars vegar um séreignarstefnuna og hins vegar um leigumarkaðinn og ég held að ýta eigi undir hvort tveggja. Sú tillaga að geta nýtt séreignarsparnaðinn okkar skattfrjálst í einhvern tíma til að ungt fólk og aðrir geti eignast sína fyrstu íbúð skiptir máli. Ég held líka að samhliða því sé nauðsynlegt að við förum í endurskoðun á neytendalánum vegna þess að eins og þau eru í dag og greiðslumat liggur fyrir er ljóst að það eru ekki margir sem fara í gegnum það, en ungt fólk og eldra fólk er kannski á leigumarkaði og þarf að greiða á bilinu 100–200 þús. kr. í leigu sem það gæti að sjálfsögðu á sama hátt staðið undir lánum sínum. Þetta er líka verulegt atriði sem við þurfum að taka á í þessum umræðum öllum um hvernig við viljum haga búsetuformi hér á landi.

Einnig er ljóst að við þurfum að endurskoða byggingarreglugerðina með tilliti til byggingarkostnaðar en við þurfum jafnframt, þegar farið er inn í þá reglugerð alla, að hafa það ætíð hugfast að draga ekki úr öryggiskröfum. Þar koma að sjálfsögðu inn aðgengismál fatlaðra og mörg önnur mál sem tengjast íbúðum og búsetu.

Við þurfum líka að vanda til verka þegar við erum annars vegar að tala um vaxtabætur og barnabætur sem eru um 7,5 milljarðar á ári og húsaleigubætur sem eru um 5 milljarðar hvernig við ætlum að nýta þá fjármuni þannig að þeir nýtist sem best, jafnt þeim sem eru í séreigninni sinni sem og hinum sem eru á leigumarkaði. Þetta eru fjármunir sem þarf að nýta og þeir eru kannski ekki nýttir eins vel og hægt væri og mætti endurskoða en vanda þarf til verka.