144. löggjafarþing — 109. fundur,  20. maí 2015.

áframhald umræðu um rammaáætlun.

[16:53]
Horfa

Lilja Rafney Magnúsdóttir (Vg):

Herra forseti. Þá hefur tekist að kreista fram breytingartillögu sem er ekki mikil að stærð, ekki mikið lesefni. Í greinargerð segir:

„Hér er lagt til að fallið verði frá tillögu um að Hagavatnsvirkjun færist í nýtingarflokk enda eiga önnur sjónarmið við um hana en aðrar virkjanir í tillögunni og hefur meiri hlutinn auk þess komist að samkomulagi við umhverfis- og auðlindaráðherra um tillögu í þessa veru.“

Ekki er neinn annar rökstuðningur með breytingartillögunni. Þetta er alveg með ólíkindum. Rökstuðningurinn er bara jafn mikill og var með breytingartillögunni sjálfri, ekki neinn, bara núll. Það er ekki hægt að bjóða Alþingi Íslendinga svona vinnubrögð, menn verða að fara að vinna hérna eins og þessi vettvangur gefur til kynna að eigi að gera.