144. löggjafarþing — 109. fundur,  20. maí 2015.

áframhald umræðu um rammaáætlun.

[17:01]
Horfa

Lilja Rafney Magnúsdóttir (Vg):

Herra forseti. Ég vil áfram ræða um þá breytingartillögu sem liggur fyrir og er búið að ná loksins fram en er því miður ansi þunnur þrettándi og rökstyður í engu af hverju menn kippa einum kosti til baka en ekki fleirum. Ekki var rökstuðningur með málinu fyrir hendi í upphafi. Nú er talað um sjónarmið eins og að vinna og verkefni verkefnisstjórnar og faghópa snúist bara um sjónarmið manna. Ég skora á hv. þingmenn hérna inni, Pál Jóhann Pálsson og Jón Gunnarsson, að fylgja þessari breytingartillögu eftir og gera grein fyrir henni. Ef þetta væri í einhverju eðlilegu samhengi mætti ætla að menn kæmu roggnir og töluðu fyrir þessu máli og hvað þeir væru að leggja til málanna. Með engum rökstuðningi er þetta marklaust plagg, enginn veit hvert framhaldið verður og við eigum að draga þetta mál allt til baka.