144. löggjafarþing — 109. fundur,  20. maí 2015.

áframhald umræðu um rammaáætlun.

[17:08]
Horfa

Jón Gunnarsson (S):

Virðulegi forseti. Mikil er málefnaþurrð manna orðin í þessu málþófi þegar þeir velta sér upp úr þessu eftir alla umræðuna þegar kallað var eftir því að fá þessa tillögu fram. Hún er komin fram og hún skýrir sig sjálf, það er fallið frá Hagavatni. Það segir í þessari stuttu greinargerð að það sé fallið „frá tillögu um að Hagavatnsvirkjun færist í nýtingarflokk enda eiga önnur sjónarmið við um hana“. Þessi sjónarmið reifaði ég í ræðu minni þegar ég mælti fyrir nefndaráliti meiri hluta nefndarinnar. Ég fór yfir það að hún hefði ekki hlotið (Gripið fram í.) sömu niðurstöðu í verkefnisstjórn og hinar tillögurnar og að því leyti væru veikari rök til að færa þann virkjunarkost í nýtingarflokk. Ég fór nákvæmlega yfir þetta. Hvaða sjónarmið voru það sem við vorum að hlusta á? Við vorum að hlusta á fólkið heima í sveitinni, fólkið sem býr við uppfokið af þessu, fólkið sem hefur af þessu áhyggjur og ferðamálafulltrúa Suðurlands eins og ég taldi upp sem telur að þetta verði mjög til uppbyggingar og styrkingar ferðaþjónustu á þessu svæði. Það eru rökin sem nefndin notaði fyrir sig til að taka ákvörðun um að leggja þetta til. Nú höfum við náð samkomulagi við umhverfisráðherra sem var einnig andvígur tillögu um að taka (Forseti hringir.) hana til baka og hættið nú að gera stórt (Forseti hringir.) veður út af (Gripið fram í.)þessu. Þetta er ekki stóra málið. Þið eruð búin (LRM: Hættirðu þá að hlusta á fólkið í sveitinni.)að fá tillöguna skriflega. Farið nú að fara í málefnalega umræðu um þetta mál þannig að við getum farið að ræða (Forseti hringir.) eitthvað af viti hérna. [Háreysti í þingsal.]

(Forseti (SJS): Forseti biður hv. þingmenn að hafa ró í salnum og minnast þess að það á ekki að ávarpa aðra þingmenn í 2. persónu, heldur beina máli sínu til forseta.)