144. löggjafarþing — 109. fundur,  20. maí 2015.

áætlun um vernd og orkunýtingu landsvæða.

244. mál
[17:32]
Horfa

Helgi Hrafn Gunnarsson (P) (andsvar):

Virðulegi forseti. Mig langar að spyrja hv. þingmann hvers vegna hún telji liggja á þessu. Hvers vegna má ekki bíða eftir 3. áfanga verkefnisstjórnar? Ástæðan fyrir því að ég spyr að þessu er vegna þess að hér er deilt um ferlið sem á að vera til að fólk sé alla vega sátt við það. Ég hef ekki sjálfur tekið afstöðu til einstakra virkjunarkosta í þessari breytingartillögu, fyrir utan Urriðafoss sem ég er á móti en ég hef ekki myndað mér skoðun á hinum. Það er heldur ekki aðalatriði hér heldur ferlið sjálft, rammaáætlunin. Nú höfum við tækifæri til þess að afgreiða þetta mál í einhvers konar sátt um ferlið, en þess í stað er brölt áfram með málið í andstöðu við umhverfisráðuneytið, eins og frægt er orðið og annar hv. þingmaður kom inn á hérna áðan. Telur hv. þingmaður ekki einhvers virði að þetta sé afgreitt með sameiginlegum (Forseti hringir.) skilningi fólks gagnvart ferlinu sjálfu?