144. löggjafarþing — 109. fundur,  20. maí 2015.

áætlun um vernd og orkunýtingu landsvæða.

244. mál
[17:34]
Horfa

Helgi Hrafn Gunnarsson (P) (andsvar):

Virðulegi forseti. Með fullkominni virðingu þá er ekki hægt að láta eins og hér sé farið eftir rammaáætlun samkvæmt skilningi allra sem koma að málinu. Meira en þriðjungur þingsins skilur þetta öðruvísi. Það væri ekkert mál að ná sameiginlegum skilningi með því að leyfa einfaldlega verkefnisstjórn 3. áfanga að klára vinnuna. Þá kæmi þetta væntanlega fram. Sömuleiðis er ráðuneytið hluti af framkvæmdarvaldinu og það er sammála minni hluta þingsins um þetta. Það er ekki hægt að segja það með neinum sannfærandi rökum að hér sé farið eftir rammaáætlun á nokkurn hátt sem menn eru sammála um.

Hvað varðar sáttina þá þykist ég nú vita að hv. þm. Svandís Svavarsdóttir hafi átt við sátt um ferlið, ekki endilega sátt um niðurstöðuna af ferlinu sem er tvennt ólíkt. Ég er sama sinnis, ég vil að sátt sé um ferlið. Það verður aldrei sátt um einstaka niðurstöður. Ef við erum sátt við ferlið getum við alla vega komist hjá svona leiðindum eins og þetta mál er orðið á þinginu.

Ég spyr því aftur til að vera algjörlega skýr, virðulegi forseti: Hvers vegna má verkefnisstjórn 3. áfanga ekki fá að klára áður en við tökum þessa virkjunarkosti til umfjöllunar?