144. löggjafarþing — 109. fundur,  20. maí 2015.

áætlun um vernd og orkunýtingu landsvæða.

244. mál
[17:40]
Horfa

Þórunn Egilsdóttir (F) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég vona að ég hafi ekki sýnt af mér neitt stærilæti hérna, það langar mig ekki til að gera. En við höfum þá skilið það á mismunandi hátt, ég og hv. þm. Björt Ólafsdóttir, í hverju umhverfismat framkvæmda felst. Þar er kafað miklu dýpra ofan í málin. Þar eru teknir fyrir umhverfisþættir og rannsakaðir dýpra og farið ofan í þá sem ástæða þykir til. Ég treysti því fullkomlega að þar fari af stað mikil vinna og miklar rannsóknir; og komi fram rök sem á einhvern hátt benda til þess að ekki sé forsvaranlegt að fara í framkvæmdir þá muni það verða stoppað. En skyldi það þá vera að það hafi aldrei gerst af því þetta er svo nýtilkomið hjá okkur? Það má spyrja sig að því.