144. löggjafarþing — 109. fundur,  20. maí 2015.

áætlun um vernd og orkunýtingu landsvæða.

244. mál
[17:41]
Horfa

Oddný G. Harðardóttir (Sf) (um fundarstjórn):

Herra forseti. Sú ræða sem hér var haldin áðan og þau andsvör sem fram komu hjá hv. flutningsmanni breytingartillögu atvinnuveganefndar er sannarlega ástæða til að taka málið af dagskrá. Það gengur ekki að hér komi menn, flutningsmenn breytingartillögu og standi hér og fari með ósannindi hvað eftir annað í ræðustól, þekkja ekki sögu rammaáætlunar, vita ekki hvað gerðist hér á síðasta kjörtímabili, létu sig vanta í salinn þegar farið var yfir sögu og staðreyndir mála.

Auk þess lýsir hv. þingmaður fullkomnu vantrausti á verkefnisstjórnina. Rammaáætlun er hreinlega fallin með þessum tillögum meiri hluta atvinnuveganefndar, vantraust á verkefnisstjórnina og rammaáætlun út um gluggann, takk fyrir, af því að það þarf að virkja svo mikið.