144. löggjafarþing — 109. fundur,  20. maí 2015.

áætlun um vernd og orkunýtingu landsvæða.

244. mál
[17:47]
Horfa

Bjarkey Gunnarsdóttir (Vg) (um fundarstjórn):

Herra forseti. Ráðleysi meiri hlutans við að standa fyrir máli sínu er orðið áberandi hér í umræðunni, það hefur afhjúpast. Þau leggja væntanlega á flótta úr sal af því að þau vilja ekki hlusta á gagnrýni okkar um það mál sem þau voru að flytja.

Mig langar til að hvetja meiri hluta atvinnuveganefndar, og sérstaklega það fólk sem ekki var á þingi síðast, til að lesa nefndarálit sem er á þingskjali 526, 89. mál á 141. löggjafarþingi, um vernd og orkunýtingu landsvæða. Í lokin á því stendur, með leyfi forseta:

„Líkt og í fyrsta áfanga var víðtækt samráð viðhaft í vinnu verkefnisstjórnarinnar og faghópa hennar. Hægt var að fylgjast með framvindu mála á vefsetri hennar og senda inn athugasemdir og umsagnir. Fundir voru haldnir um allt land með hagsmunaaðilum og áhugafólki. Þegar faghópar höfðu skilað niðurstöðum sínum voru þær kynntar og settar í opið umsagnarferli. Til að tryggja lögformlega stöðu rammaáætlunarinnar og faglega vinnu við áætlunina voru lög um verndar- og orkunýtingaráætlun, nr. 48/2011, sett í maí 2011. (Forseti hringir.) Þau lög voru samþykkt samhljóða. Verkefnisstjórnin skilaði skýrslu sinni með tillögu að röðun virkjunarkosta og landsvæða í júlí 2011. Iðnaðarráðherra fól sérstökum hópi að ljúka vinnu við áætlunina í samráði við umhverfisráðherra með flokkun virkjunarkosta og senda hana til umsagnar í samræmi við lög nr. 48/2011.“