144. löggjafarþing — 109. fundur,  20. maí 2015.

áætlun um vernd og orkunýtingu landsvæða.

244. mál
[17:50]
Horfa

Jón Þór Ólafsson (P) (um fundarstjórn):

Herra forseti. Áfram ræðum við þetta mál sem ætti fyrir löngu að vera búið að taka af dagskrá. Forseti ætti að hætta að setja það á dagskrá og vísa því til nefndar aftur sem gæti síðan tekið ákvörðun um að vísa málinu til ráðherra, alla vega þessum kostum, falla frá breytingartillögunni og taka bara Hvammsvirkjunina. Hvað er þá í stöðunni?

Það er tvennt í stöðunni. Annars vegar að bíða eftir áliti verkefnisstjórnar, það tefur málið um tvö ár. Hins vegar að ráðherra leggi sjálfur, innan ramma laganna, fram breytingartillögur sem þó eru ekki endilega studdar á grundvelli þessarar verkefnisstjórnar; hann getur samt gert það innan ramma laganna með tveggja mánaða umsagnarferli. Það væri svolítið gerræði en alla vega væri ekki verið að brjóta rammann. Við hefðum enn þá þennan lagaramma til langtímastefnumótunar. Þetta mundi náttúrlega þýða að þessir virkjunarkostir yrðu ekki kláraðir núna, bara einn þeirra, en þessi tveggja mánaða uppsagnarfrestur mundi líða yfir sumarið og hægt væri að klára málið næsta haust. Þetta er það sem við stöndum frammi fyrir í staðinn fyrir að halda áfram hér í þingsalnum.