144. löggjafarþing — 109. fundur,  20. maí 2015.

áætlun um vernd og orkunýtingu landsvæða.

244. mál
[17:51]
Horfa

Guðmundur Steingrímsson (Bf) (um fundarstjórn):

Virðulegi forseti. Það hlýtur að þurfa að vanda til verka á einhvern hátt hér í þinginu. Mér finnst það orðið svo áberandi í umræðu um þetta mál að ákveðin grundvallaratriði eru ekki á hreinu. Það er alltaf vont að vera að ræða mál þegar grundvallaratriði eru ekki á hreinu. Við erum þá kannski að sigla í einhverri atburðarás þar sem ákvarðanir verða teknar af meiri hluta þingsins á grundvelli algers misskilnings.

Menn virðast vera að misskilja lög um rammaáætlun, hvað verkefnisstjórn á að gera. Verkefnisstjórn hafði vissulega lokið yfirferð sinni á þessum virkjunarkostum en svo fór það í umsagnarferli, það komu umsagnir, það var hluti af ferlinu. Eftir umsagnirnar var verkefnisstjórninni falið að skera úr um tiltekin álitamál sem komu fram í þeim umsögnum. Hún er ekki búin að því, verkefnisstjórnin, og af þeim ástæðum einum og sér er fáránlegt að við skulum vera að ræða þetta hér. Það er algerlega út í hött.

En hér koma menn upp og tala um þetta sem einhverja pólitíska atburðarás, hún var eins fagleg og verða má. Ég nefni bara eitt atriði sem er greinilega misskilningur á því hvað hér hefur farið fram um rammaáætlun.