144. löggjafarþing — 109. fundur,  20. maí 2015.

áætlun um vernd og orkunýtingu landsvæða.

244. mál
[18:00]
Horfa

Katrín Júlíusdóttir (Sf) (um fundarstjórn):

Virðulegi forseti. Ég er að reyna að átta mig á því til hvers menn leggja af stað í svona leiðangur, sérstaklega í ljósi þess að ef menn hefðu ekki farið í þennan undarlega hring að ætla að taka inn fjórar viðbótarvirkjanir þá væri búið að afgreiða Hvammsvirkjun héðan út. Það hefði líklega gerst í desember.

Þá vil ég líka nefna það að samkvæmt áætlun mun verkefnisstjórnin skila flokkun á 26 kostum haustið 2016, sem er bara á næsta ári. En hvað ákveður stjórnarmeirihlutinn að gera? Bara til að sýna vald sitt, sýna hvað þeir geta, ákveða menn að fara í þennan leiðangur sem gerir ekkert annað en hleypa málinu í fullkomið uppnám, skapa ófrið um málsmeðferðina og tefja allt málið í gegnum þingið fyrir vikið. Það er það sem eftir stendur af þeim leiðangri þessa stjórnarmeirihluta.