144. löggjafarþing — 109. fundur,  20. maí 2015.

áætlun um vernd og orkunýtingu landsvæða.

244. mál
[18:05]
Horfa

Guðmundur Steingrímsson (Bf) (um fundarstjórn):

Virðulegur forseti. Hér áðan fannst mér hv. formaður atvinnuveganefndar aftur vekja hjá mér verulegar grunsemdir um að allur þessi málatilbúnaður væri byggður á misskilningi og best væri fyrir brag þinghaldsins að taka þetta mál af dagskrá og útkljá þennan misskilning. Hv. formaður atvinnuveganefndar heldur því fram að faglegt mat hafi farið fram á þessum virkjunarkostum. Samt leggur ráðherra bara til Hvammsvirkjun vegna þess að honum var ekki annað fært.

Það virðist vera einhver brjálæðislegur ágreiningur í gangi um hvenær faglegu mati sé lokið. Það má skilja á hv. formanni atvinnuveganefndar að faglegt mat hafi farið fram um leið og það hófst, um leið og menn settu puttann á loft. Því er ekki lokið.

Hvernig skilur meiri hluti atvinnuveganefndar hugtakið biðflokkur? Þessir kostir eru í biðflokki, þeir eru ekki í verndarflokki eða nýtingarflokki heldur biðflokki. (Forseti hringir.) Ef menn skilja biðflokk rétt þá er umfjöllun um virkjunarkostina ekki (Forseti hringir.) lokið. Það er merking orðsins biðflokkur í þessu samhengi. Það er alvarlegt (Forseti hringir.) ef menn skilja þetta ekki en ef þeir skilja þetta þá eiga þeir auðvitað að taka málið af dagskrá og hreinsa þetta upp.