144. löggjafarþing — 109. fundur,  20. maí 2015.

áætlun um vernd og orkunýtingu landsvæða.

244. mál
[18:15]
Horfa

Oddný G. Harðardóttir (Sf) (um fundarstjórn):

Herra forseti. Ég verð að taka undir með hv. þm. Guðmundi Steingrímssyni sem heldur því fram að hér sé um stóran misskilning að ræða. Ég held að það hljóti að vera þannig. Hér kemur hv. formaður atvinnuveganefndar, hv. þm. Jón Gunnarsson, og segist ekki sjá muninn á því sem gerðist á síðasta kjörtímabili og því sem er verið að gera núna.

Á síðasta kjörtímabili komu fram nýjar upplýsingar í lögbundnu umsagnarferli sem aðeins fagmenn gátu lagt mat á. Þess vegna var beðið með flokkum á þeim virkjunarkostum þar til verkefnisstjórn hefði tekið upplýsingarnar til athugunar. Þetta telur hv. þm. Jón Gunnarsson að sé það sama og að stjórnmálamenn hlusti ekki á verkefnisstjórn, fari fram hjá faglegu mati verkefnisstjórnar, taki virkjunarkosti bara sisvona og skelli endanlega í nýtingarflokk. Það er himinn og haf þarna á milli. Augljóst er að allur málatilbúningurinn er byggður á miklum misskilningi og það þarf að taka málið af dagskrá.