144. löggjafarþing — 109. fundur,  20. maí 2015.

áætlun um vernd og orkunýtingu landsvæða.

244. mál
[18:19]
Horfa

Össur Skarphéðinsson (Sf) (um fundarstjórn):

Herra forseti. Það stendur heldur ekki steinn yfir steini í máli hv. þm. Jóns Gunnarssonar sem auðvitað hleypur úr salnum þegar tímamótaræður eru haldnar þegar kemur að orkuskortinum meinta.

Ef farið er yfir hvað þarf mikla orku fyrir alla þá stóriðju sem nú er búið að samþykkja þá eru það 500 megavött. Hvammsvirkjun er um 80 megavött. Ætli það sé ekki varlega áætlað 100 megavött sem eru laus í kerfinu. Ef menn mundu bæta byggðalínuna og tenginguna austur þá er hægt að taka 60–70 úr Kárahnjúkum. Það sem kannski mestu skiptir og ég skil ekki af hverju meiri hlutinn hefur ekki skoðað, er Búrfellsvirkjun 2 sem hefur öll leyfi og þar er hægt að búa til 130 megavatta afl. Þá eru eftir 80 megavött upp að þessum 500 og það er hægt með því að bæta við túrbínum í nokkrum ám sem búa við meira rennsli en áður og skella kannski upp svona 20–30 vindmyllum sem hafa gengið mjög vel. (Forseti hringir.) Þannig er hægt að leysa þetta allt saman þannig að það er tóm vitleysa að það standi stóriðjunni fyrir þrifum sem búið er að ákveða.