144. löggjafarþing — 109. fundur,  20. maí 2015.

áætlun um vernd og orkunýtingu landsvæða.

244. mál
[18:21]
Horfa

Helgi Hrafn Gunnarsson (P) (um fundarstjórn):

Virðulegi forseti. Það liggur mótsögn í því að segja hv. atvinnuveganefnd ýmist óbundna eða þá að hún sé að vinna í samræmi við rammaáætlun. Allt í þessu máli sýnir fram á réttmætan vafa á því hvort farið sé eftir ferlinu. Á seinasta kjörtímabili vildi þáverandi minni hluti meina að þáverandi meiri hluti færi ekki almennilega eftir ferlinu en augljósasti munurinn er sá að þá var ákveðið að gera ekki eitthvað, það var ákveðið að flokka hvorki í verndarflokk né nýtingarflokk. Hér er verið að ákveða að setja annaðhvort í verndarflokk eða nýtingarflokk, nánar tiltekið nýtingarflokk. Það er eðlismunur á því að gera eitthvað og gera ekki eitthvað, nánar tiltekið eru þetta andstæður. Það að bíða er akkúrat það öfuga við að gera eitthvað fyrr en ella. Hér er verið að gera það öfuga við það sem var gert á síðasta kjörtímabili. Þar var farið varlega. Hér er farið geyst. Þar vildu menn meiri upplýsingar. Nú vilja menn nota gamlar upplýsingar og ekki taka mið af nýjum upplýsingum og ekki fá nýjar upplýsingar, kvarta reyndar undan því í nefndaráliti að það sé krafist of mikilla upplýsinga. (Forseti hringir.) Það er alger eðlismumur á nálgunum á þessu kjörtímabili og því síðasta og það er ekki trúverðugt að menn láti eins og þetta sé eitthvað öðruvísi.