144. löggjafarþing — 109. fundur,  20. maí 2015.

áætlun um vernd og orkunýtingu landsvæða.

244. mál
[18:46]
Horfa

Katrín Júlíusdóttir (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ráðherra Framsóknarflokksins í núverandi ríkisstjórn sendir í júní 2013 bréf til verkefnisstjórnarinnar og biður hana að meta Þjórsárvirkjanirnar út frá laxarökunum og einnig hinar virkjanirnar út frá áhrifunum á Vatnajökulsþjóðgarð. Síðan er lögð fram tillaga af þeim sama ráðherra Framsóknarflokksins um Hvammsvirkjun á þinginu í haust. Í framhaldinu af því fer málið í eitthvert ótrúlegt „spinn“ innan atvinnuveganefndar og allt í einu er það fyrrverandi ríkisstjórn, fráfarandi ríkisstjórn, vonda vinstri stjórnin, alltaf þarf að vinda ofan af öllu sem hún gerði, sem á að hafa borið ábyrgð á því að menn væru í þessari gagnaöflun. Þetta er orðin alger hringavitleysa og menn vita ekkert á hverju þeir eiga að byggja röksemdir sínar. Ég verð að segja alveg eins og er að mér finnst meiri hluti atvinnuveganefndar hafa kúskað ráðherra Framsóknarflokksins ansi hressilega til og gert lítið úr verkum þeirra með þessari aðgerð.