144. löggjafarþing — 109. fundur,  20. maí 2015.

áætlun um vernd og orkunýtingu landsvæða.

244. mál
[18:57]
Horfa

Helgi Hrafn Gunnarsson (P) (andsvar):

Virðulegi forseti. Hvað varðar þau álitaefni sem komu upp í sambandi við meðferð hæstv. umhverfisráðherra í síðustu ríkisstjórn þá fannst mér það mjög skýrt. Einnig þegar kemur að vafaatriðum hér, mér þykja þau kannski ekki endilega skýr en það eitt að þau séu óskýr ætti að gefa okkur ástæðu til að bíða.

Það er hins vegar mjög skýrt að það er ágreiningur um lögmæti þessarar þingsályktunartillögu, byggt á lögum um rammaáætlun, og það eitt og sér er vandamál. Það þýðir að Alþingi er í raun og veru að hætta á að brjóta eigin reglur. Ef vandinn er sá að reglurnar séu ekki nógu skýrar þá er rétta leiðin að skýra löggjöfina. Þetta vefst ekkert fyrir mér persónulega. Fyrir mér er mjög augljóst að þetta er ekki rétta ferlið. En ef hv. meiri hluti er ósammála því, sem hann er, þá ætti hann að takast á við það vandamál með því að leggja fram frumvarp sem breytir rammaáætlun þannig að ferlið sé skýrt að hans mati.