144. löggjafarþing — 109. fundur,  20. maí 2015.

áætlun um vernd og orkunýtingu landsvæða.

244. mál
[18:58]
Horfa

Willum Þór Þórsson (F) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég vil þakka hv. þingmanni svarið. Ég ber fulla virðingu fyrir því að þetta er ekki einfalt og sjálfsagt hefðum við ekki eytt öllum þeim tíma sem við höfum eytt á undanförnum dögum í að ræða um málið væri það einfalt.

Svo ég skýri spurningu mína betur úr fyrra andsvari þá ætla ég að lesa upp úr umsögn Orkustofnunar. Þar segir, með leyfi forseta:

„Með því að flytja umrædda virkjunarkosti í Þjórsá úr nýtingarflokki í biðflokk var, að mati Orkustofnunar, markmiðum um sjálfbæra uppbyggingu raforkuframleiðslunnar stefnt í hættu.“

Þegar við erum svo föst í forminu og reglunum þá er hættan á því að regluverkið verði yfirsterkara markmiðunum með regluverkinu sjálfu. [Rafmagnstruflun.] Þetta er mjög kröftug ræða greinilega, rafmagnið fór af húsinu og ég fæ óendanlegan ræðutíma í staðinn.