144. löggjafarþing — 109. fundur,  20. maí 2015.

áætlun um vernd og orkunýtingu landsvæða.

244. mál
[18:59]
Horfa

Helgi Hrafn Gunnarsson (P) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég veit ekki hvað ég þori að segja. Ég ætlaði að segja að það væri ekkert sem benti til þess að hér yrði eitthvert uppnám og Íslendinga vantaði raforku þegar rafmagn er almennt ódýrt — og er almennt stöðugt, maður er hissa á því að rafmagnið fari af, það verður að viðurkennast, sömuleiðis veit maður ekkert hvers vegna þetta er, það er varla vegna þess að það er ekkert búið að virkja. (Gripið fram í.) Já, þetta er væntanlega ekki vegna neins sem við höfum gert hérna upp á síðkastið. Þetta er ægilega fyndið, reyndar.

Rammaáætlun var einnig sett — nú hef ég aftur rétt fyrir mér. Ramminn var einnig settur til að fara varlega, til að það væri sátt um ferlið sem farið væri. Auðvitað er Orkustofnun á þessari línu alveg eins og umhverfisverndarsamtök eru væntanlega á annarri línu. Það er þess vegna sem við settum okkur eitthvert ferli sem var hugsað til að það næðist sátt um ferlið. Það hefur mistekist, svo mikið er greinilegt að það hefur mistekist hverjum sem svo það er að kenna. En leiðin fram á við er með því að laga ferlið frekar en halda áfram (Forseti hringir.) samkvæmt eigin sannfæringu að brjóta það.

(Forseti (KLM): Nú höfum við fengið meira rafmagn í salinn og ljósin orðin skýrari.)