144. löggjafarþing — 109. fundur,  20. maí 2015.

áætlun um vernd og orkunýtingu landsvæða.

244. mál
[19:02]
Horfa

Helgi Hrafn Gunnarsson (P) (andsvar):

Virðulegi forseti. Í þeim orðum sem hv. þm. Höskuldur Þórhallsson lætur hér falla um niðurstöðu úr atkvæðagreiðslum um dagskrá, jú, jú, það er dagskráin í dag, en dagskráin hefur verið ákveðin af forseta nú í dágóðan tíma og forseti hefur vissulega valdið yfir dagskránni eins og hv. þingmaður veit.

Nú er það þannig að kosningar eru á fjögurra ára fresti. Á fjögurra ára fresti myndast hérna ákveðið hlutfall þessa þings sem er með meiri hluta. Rök hv. þingmanns eru þau sömu og þegar hæstv. fjármálaráðherra kom hingað í pontu og sagði: Meiri hlutinn ræður. Það eru 40% þessa þings sem eiga að hafa eitthvað að segja, þannig að ég gæti kastað spurningunni til baka. Hefur ekki minni hlutinn þann rétt til að kvarta og kveina og nöldra og væla og grenja eins og aumingjar ef þeim sýnist yfir ákvörðun þessa 60% þings?